Virkjum álverið í Straumsvík – tvær flugur í einu höggi

SENN líður að því að Hafnfirðingar kjósi um skipulag sem heimili stækkun álvers Alcan í Straumsvík. Spurningin um verulega stærra og afkastameira álver varðar fleiri en íbúa Hafnarfjarðar þegar litið er til orkuöflunar annars vegar og útblásturs hins vegar. Orkuöflunin snertir inngrip í náttúru Íslands og þar með okkur öll og afkomendur okkar en útblástur gróðurhúsalofts og svifryks varðar heilsu okkar og reyndar heilsu lífkerfis allrar jarðarinnar.

Umræðan, þegar tekist er á um kosti og galla stækkunar, er gott merki um lýðræði í verki og við megum vera þakklát fyrir þjóðfélag þar sem lýðræðisleg umræða er heimil. Þátttaka starfsmanna Alcan er samt ekki mjög sannfærandi í þessari kosningabaráttu. Það er ljóst að þeir sem vilja teljast góðir starfsmenn hljóta að styðja stækkun, það er nánast eins og hluti af starfi þeirra. Ótti þeirra við að missa störf sín er þó trúlega óþarfur. Hlutirnir gerast ekki það hratt og fyrir góða og vel þjálfaða starfsmenn eins og eru í álverinu í Straumsvík bjóðast ótal atvinnutækifæri í blómlegu atvinnulífi þjóðarinnar. Ég efast ekki heldur um að forstjórinn á margra góðra kosta völ ef hún þarf að finna annað starf, með einstaka tæknimenntun og stjórnunarfærni í fremstu röð.

Ég kýs að skoða þetta mál frá öðru sjónarhorni en venjan er. Ég lít á spá stjórnenda Alcan um að álverinu verði lokað fái það ekki að stækka, sem gott fyrirheit, loforð sem opnar nýja spennandi möguleika en ekki hótun sem þurfi að kvíða. Lokun álversins í Straumsvík yrði ódýr og fljótvirkur virkjunarkostur. Ég ætla að sleppa öllum tölum um megavattstundir eða áltonn og þess háttar stærðir en vil einfaldlega benda á að þarna er mikið tilbúið afl sem nota mætti í aðra áhugaverða framleiðslu ef álverinu verður lokað.

Hér er ég með raforku og eldsneyti fyrir bíla og hugsanlega einnig skip í huga. Raforkuna má nota beint á tvinnbíla með rafgeymum þar sem þeir væru hlaðnir með næturrafmagni og raforku má einnig nota í efnaverksmiðju til þess að framleiða umhverfisvænt efnaeldsneyti. Efnaeldsneyti í þessu samhengi er í raun ekkert annað en geymslumiðill fyrir orku, þar sem efnahvarf bindur raforku og við brennslu þess gengur efnahvarfið til baka og skilar orkunni. Slík verksmiðja mundi koma í stað álversins og skapa vinnu og verðmæti á tvennan hátt. Í fyrsta lagi væri um að ræða vistvæna nýtingu orku í stað mengandi framleiðslu áls og í öðru lagi væri innlend orka notuð fyrir bíla og skipaflota í stað þess að kaupa mengandi bensín og dísilolíur fyrir ærið fé. Ekki spillir það svo að vita að orkan sem álverið notar fæst á afar hagstæðu verði!

Því skal ekki haldið fram að þetta sé tæknilega einfalt og áreynslulaust en það er mikið að gerst í þessu efni í dag og tækniheimurinn er gjörbreyttur frá því sem hann var fyrir um 40 árum þegar álverið reis. Við getum lesið um tvinnbíla og efnaorkubíla á vef orkusetursins á Akureyri (www.orkusetur.is) og við getum lesið um notkun vetnisorku á vef nýorku (www.ectos.is) og hönnuðir bílvéla eru með margt nýtt á döfinni eins og finna má viða á vefnum t.d. hjá (www.hydrogenenginecenter.com).

Álframleiðsla eins og hún er rekin á Íslandi er frumframleiðsla sem helst fer fram í þriðja heiminum og tilheyrir liðinni öld á svipaðan hátt og námugröftur. Við Íslendingar þurfum ekki taka slíka fortíð með okkur inn í framtíðarlandið!

Höfundur er eðlisfræðingur og starfar hjá Neytendastofu.


Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Athyglisverð tillaga hjá þér, Gísli ! Um leið vil ég nota tækifærið til að bjóða þig velkominn á Moggabloggið, það er fengur að því að fá þig í umræðuna um vísindamál jafnt sem andleg verðmæti. Með góðri kveðju,

Jón Valur Jensson, 31.3.2007 kl. 14:34

2 Smámynd: Theódór Norðkvist

Stórgóð grein. Bið að heilsa á Holtaveginn!

Theódór Norðkvist, 31.3.2007 kl. 16:55

3 Smámynd: Gísli H. Friðgeirsson

Takk fyrir góðar kveðjur. Mín innkoma í þetta blogg-samfélag er sú að ég sendi umræðugrein til Mbl. og henni var hent í blogg væntanlega vegna of margra greina í aðdraganda kosninga um stækkun Alcans í Hafnarfirði. Það er vel mögulegt að ég eigi eftir að tjá mig frekar á þessum vettvangi - en þó aðeins að þátttakendur virði góða mannasiði í samskiptum, einfandlega eins og fólk á að tala saman augliti til auglitis.

Gísli H. Friðgeirsson, 1.4.2007 kl. 15:26

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband